Monday, February 16, 2009

Bless bjútífúl Brasilía!


Við erum að pakka, rútan fer af stað til Igazu fossanna klukkan fjögur í dag og við eigum fimm sæti bókuð í henni. Við lásum í bók að því minna númer á sætunum, því betra, því það þýðir að sætið er lengra frá klósetti rútunnar, en við erum með há númer. Pollyannan í okkur segir bara „gott að það sé stutt á klóið...“ hmm. Gaui fór einn að kaupa miðana í fyrradag, kom heim og tilkynnti þetta með sætin, og bætt svo bið „við sitjum fjögur saman öðru megin í rútunni og svo er eitt sætið við barinn...“ Viktor var fljótur á sér, svaraði glottandi, dimmri röddu: „ég skal vera þar“. Svaka fórn. Er nú ekki ákveðið hver verður við barinn ennþá, en sætin eru víst svona svefnsæti, maður getur hallað þeim alveg aftur og upp kemur fótastallur. Ég er spennt að prófa þetta, en það er nú ekki verra að hafa þægileg sæti í 22 tíma rútuferð!!


Þegar við erum búin að pakka ætlum við á Bibi´s að fá okkur uppáhaldið okkar, en það er bombuber sem við erum búin að uppgvöta. Þetta ber vex í Amazon, er fjólublátt og borið fram hálffrosið, eins og ís í skál. Fullt af andoxunarefnum, járni og vítamínum og VIÐ ELSKUM ÞAÐ!!!! Vonandi verður hægt að fá þetta í hinum Suður-Ameríku löndunum, því þetta er ávanabindandi og gríðarlega holl máltíð sem strákarnir sníkja á hverjum degi. Ekki slæmt.

Við fórum á ströndina í gær, síðasta strandferðin okkar á Barra-ströndina okkar og það var hrikalega gaman. Öldurnar voru gríðarstórar og ég fór aðeins út í þær með Arnóri og Viktori. Það er ótrúlega gaman að ná hárri öldu áður en hún brotnar, því hún lyftir manni nokkra metra upp og niður aftur eins og í rússibana. Svo auðvitað fatast manni listin stundum, lendir í „broti“ og er eins og í þvottavél í nokkrar sekúndur. Svakalegur kraftur og ekkert að gera í raun, nema að halda í sér andanum og bíða eftir að vindunin klárist. Viktor er svellkaldur í þessu, ég svosem líka og það sem ég var kannski hissa á var að Arnór var líka alveg ótrúlega duglegur. Hissa og ekki hissa, Arnór er náttúrulega hörkudagurlegur, en hann er alveg höfðinu minni en við Viktor, svo öldurnar urðu enn hærri fyrir hann. Við fengum svoleiðis sjó í augu, nef og eyru og vorum kýld niður í sandinn stundum (því það er ekki svo djúpt þarna og litlir straumar þennan daginn, hefði ekki farið með guttana út í eitthvað brjálæði, ömmur!!) og þetta var mikið fjör. Og þetta er sko hörkuútgáfa af sundæfingu fyrir guttana.

Við vorum að kveðja Simone, konuna sem sér um þrif á hæðinni hér, er ca. þrítug, lítil og brosmild. Við höfum kynnst henni aðeins, hún er voðalega vinaleg og kann ekkert í ensku, en við náum samt að tala saman með handapati og andlitsgrettum. Hún er svo hrifin af strákunum, finnst þeir svo flottir, er voðalega skotin í Orra (sem er kallaður Patríkí hér í Bras), svo ég fór að spyrja um daginn hvort hún ætti börn. Hún jánkar og setur upp tíu fingur!! Ég hugsa bara: „je, dúdda mía... aumingja konan að vera kaþólskur ræstitæknir, fer ekki vel saman..) en þá var hún bara að segja að hún ætti strák sem er tíu ára. Svo á hún líka stelpu sem er 12 ára. Áðan þegar við vorum að gefa henni smá kveðjugjafir, þá sagði hún við Orra: „má ég ekki taka þig með heim, og þig..“ við Arnór, og svo við Viktor: „ og þig heim fyrir stelpuna mína að giftast!!“.


Þetta er í annað sinn sem Viktor vekur lukku hjá konum sem vilja hann sem mann fyrir dæturnar, enda orðinn 170cm á hæð og virkar örugglega miklu eldri en 12 ára. Vorum á veitingastað um daginn og ég og Gaui pöntuðum bjórglas. Svo kom þjónninn og skellti einu glasi hjá Gauja, og einu hjá Viktori!! Allavega, Simone var ógurlega glöð og þakkaði okkur sérstaklega fyrir að gefa henni þjórfé (við höfum alltaf skilið eftir pening á föstudögum fyrir hana) og sagði okkur að hún hefði notað peninginn frá okkur til að kaupa skólabækur fyrir börnin sín tvö! Gott að heyra það og gaman þegar maður getur gert eitthvað fyrir aðra, því launin fyrir svona störf eru mjög lág. Við höfum aðeins séð inn í fátækrahverfin hérna, þetta eru svakalegir kofar og í raun alveg eins og í bíómyndunum. Alger kofahreysi í kaos og svo hlaupandi næstum því allsber dökkbrún börn út um allar götur. Og það er sko gríðarleg stærð á þessum Favela-hverfum (fátækrahverfum). Við höfum hins vegar ekki farið inn í hverfin, þykir mjög óöruggt að fara þangað án fylgdar heimamanna.


Hann Gummi spyr í commenti hér eða á facebook, man ekki, hvernig í ósköpunum okkur dettur í hug að púla svona með ketilbjöllur í 30°c hita...? Ég er eiginlega á sömu línu núna með BJJ, því ég er eitthvað tognuð við bringubein eftir glímu. Líkaminn þarf að venjast rúllinu og það tekur tíma og þolinmæði, sem ég hafði svo sem ekki á þessum æfingamánuði okkar. Á undan bringubeinsveseni var það bólgin tá og fyrir það var bakið stíft og fyrir það var hálsinn í klessu....... en það eru eiginlega engin svör önnur en „Gummi, þetta er bara svo gaman!“ :)

3 comments:

Anonymous said...

Arnór þú ert að ná Viktori í hæð (RISI). En addaðu mér inná Facebook það eiga allir í bekknum facebook nema Gummi KV. Kristó, Siggi og Gummi

Það komst ömurlegt lag áfram í eurovision íslensku ertu búinn að heyra það ef ekki skrifaðu is it true inná youtube.com og hlustaðu á það:):):):):):):):):):):):):););):):)

Anonymous said...

Vá 22 tíma ferð, við Kjarri fórum einu sinni frá syðst á Spáni til Madrídar í rútu, voru 8-10 tímar hvor leið, (engin svefnsæti og lítið barn fyrir aftan okkur á smá orgi). Það var alveg einum of svo þið eigið alla mína samúð fyrir þessa ferð. En þetta verður bara stuð og vonandi gengur vel:)
Knús Helga

Anonymous said...

170cm ''váá'' þú ert orðinn svona 20cm stærri en ég.
vona að kemur á msn fljótlega og ég hlakka til að sjá þig í ágúst.

Kv.Siggi