Wednesday, July 1, 2009

Santa Catalina klaustrið


Ég fór um daginn að skoða þetta 500 ára klaustur sem er eitt það frægasta í Perú. Allir talað um að þetta sé "must see" og ég ákvað að skella mér. Ég þekki hins vegar mitt fólk og var ekkert að ýta á guttana eða Gauja að koma með, bæði erum við búin að skoða ansi margar byggingar í ferðinni og svo hefur nú bara ýmislegt í kaþólsku trúnni vakið spurningar hjá okkur. Við fáum mjög oft þá tilfinningu þegar við förum í stóru skrautlegu kirkjurnar þeirra að trúin hjá þeim snúist um svo mikla þjáningu og það vanti alla gleði. Boðskapurinn sé eiginlega að maður eigi að hafa samviskubit yfir að lifa lífinu. Í kirkjunum eru myndir og ikonar af Jesú, öllum blóðugum, þjáningarsvipur á honum, alls staðar svik, lygi og neikvæðar upplifanir á öllum málverkum. Mjög sjaldan eitthvað frá góðu stundunum í lífi Jesú. Og ég veit að hann átti margar góðar stundir. Mín skoðun er sú að maður eigi að geta leitað huggunar í trúnni, fundið gleði, traust, góðmennsku, hjálpsemi og mér finnst í raun alltaf besta reglan; að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Einfalt í raun og þarf ekki allan þennan skrautlega ramma utan um slíka lífsreglu. En kaþólska trúin er jú stór hluti menningar í Suður-Ameríku, svo við skoðum oft kirkjurnar. Þar sem hugmyndin um að ganga og skoða stórt klaustur, skála nunnanna, eldhúsið þeirra og fleira í þeim dúr (þetta er eiginelga lítið þorp sem nunnurnarnar bjuggu í, þorp í borginni innan þykkra veggja) var ekki alveg að vekja áhuga, og þar sem það var rándýrt að koma þar inn, þá fór ég bara ein í þetta sinn. Sem betur fer, þeim hefði hundleiðst... Fallegar byggingar samt! Mjög fallegar.

No comments: