Sunday, November 2, 2008

Ljósin og fleira


Í gær var sjálfsstæðisdagur Barbadosbúa, orðin 42 ár síðan þeir fengu sjálfstæði frá Bretum. Þeir byrja að halda upp á þetta 1. nóvember og svo er allur mánuðurinn tekinn í hátíðahöld. Þetta er einskonar ljósahátíð, það er komið ansi mikið af seríum og skreytingum út um allt hér. Ég held þetta sé laumuleg aðferð til að geta skreytt fyrr fyrir jólin. Þetta eru jólaseríur. Voða fallegt.


Nágranni okkar, hann Armstrong, kom um daginn í mat til okkar. Hann er frá St. Lucia, sem er nálæg eyja. Ég var eitthvað að spyrja út í jólin hér, foreldrar á æfingunum hafa sagt mér að Barbadosbúar fari alveg yfirum í skreytingum um jólin og þetta sé æðislegt. Armstrong var nú ekki sammála. Sagði jólin hérna vera "very boring" og hann færi alltaf til St. Lucia yfir hátíðarnar. Við urðum forvitin, bjuggumst bjuggumst ekki við þessu svari. En þá útskýrði hann, að Barbadosbúar eru álitnir "minnst vinalega þjóðin" í Karabíska hafinu, af hinum Karabíuþjóðunum. Og þetta kæmi sko allsvakalega fram um jólin! Shit, hugsuðum við bara með kvíðahnút í maganum.. Jú, sko, það eina sem Barbadosbúar vilja gera á aðfangadag og jóladag, er að vera heima, eða með fjölskyldunni, gefa pakka og borða saman!! Jáááá, við Íslendingarnir föttuðum ekki alveg.. "og..?" Jú, á St. Luciu er þetta töluvert öðruvísi. Á aðfangadag eru allir að chilla saman úti á götunum, svo á miðnætti er farið í messu. Eftir messuna fara allir heim til sín að skiptast á pökkum (kl. tvö um nóttina!!). Svo "morguninn" eftir, uppúr kl. fimm á jóladagsmorgun má búast við banki á hurðina, og allan þann dag er opið hús í öllum húsum á eyjunni og þetta er sem sagt "Súpudagurinn mikli!". Kunnugir sem ókunnugir detta inn í súpu og romm. Sem sagt, miðnæturmessa, pakkar, sofa ööööörlítið og vakna við bankið og: "hvar er rommið!!?" Þetta finnst Armstrong vera eina almennilega aðferðin við að halda jól. Samt er þetta skynsamur og penn maður, hmmm :)


Helgin var mikil hreyfingahelgi að vanda. Fótboltaæfing kl. 8 á laugardagsmorgun hjá Arnóri, Gaui æfði á meðan. Tók stigaæfingu (klifrar sem sagt öfugur upp stiga, rosa axlaæfing) og ýmislegt fleira. Svo fórum við í fjallgöngu hinum megin á eyjunni. Klifruðum í saltsteinunum, ótrúlega fallegt útsýni yfir austurströndina. Fórum svo á ströndina að busla með brettið hans Viktors (við gáfum honum bodyboard í afmælisgjöf, er svona meterslangt bretti sem gaman er að leika með í öldunum). Eftir ströndina brunuðum við heim að elda, fyrst reyndar "stutt" stopp í Jordans að kaupa í matinn. Hér eru búðir lokaðar á sunnudögum, svo maður þarf að gera svona helgarinnkaup, eins og fyrir fimmtán árum heima. Og laugardagskvöld eru sko vinsæl í Jordans, það er allt troðfullt af hrikalega hreint kátu fólki, þetta er bara social dæmi, allir að heilsa vinum og kunningjum, öskrandi yfir grænmetisboxin og dósahillurnar "hows you?!" "me good, you know, me always good darling!! ". Svo þegar ég var búin að græja kjúllann til að setja í ofninn þá kom bara í ljós að allt gas var búið hjá okkur. Eftir miklar pælingar var ákveðið að fara til Armstrong, sem var með rosa partý (okkur boðið, en þetta var afmælisveisla fyrir vinkonu hans, og við vorum ekki alveg að fíla að mæta í veislu þar sem afmælisbarnið myndi spyrja "hver ert þú?"). En ég sem sagt endaði í því að mæta samt, með ofnrétt í fanginu, tölti ég gegnum þennan hressa dansandi svarta hóp, setti matinn í ofninn hans Armstrong, nikkaði kurteislega til fólksins og laumaðist út um bakdyrnar. Sumir hafa ábyggilega haldið að þeir væru að sjá ofsjónir og hætt að drekka, hehe. Svo í morgun fórum við Viktor að hlaupa í brekkunni, ég bætti tímann minn, komin í 8.30 mín. Svo sóttum við Gaui sand í sandpokana niðri á strönd og gengum með þá upp að húsinu og tókum nokkrar pressur og svona. Algerir nördar, ég er að segja það! Næst á dagsskrá var fótboltaleikur hjá Nóra, hann að keppa aftur með 11-13 ára guttum og stóð sig vel. Eftir leikinn, voru það Gaui og Viktor (já, ferð tvö) sem tóku brekkuna, núna með sandpoka á öxlunum. Við hin náðum í skyndimat á meðan, því við fáum ekki gaskúta fyrir ofninn fyrr en á morgun. Guttarnir eru hæstánægðir með þetta gasleysi, þegar það þýðir að við kaupum skyndimat, það er uppáhaldið. Svo eini sem ekki hefur þreytu í vöðvum núna er mr. Patrick, en hann er búinn að lofa að taka extra vel á því á fótboltaæfingu á þriðjudaginn.


Ég held að kókoshnetur eru að verða uppáhaldið mitt, við fengum okkur í dag eftir hlaupin, við Viktor. Aarg, hvað fersk kókoshneta er góð, og tilfinningin eftir á, maður finnur bara hvað þetta er gott fyrir líkamann. Það er eins og maginn brosi til manns eftir slíka dýrð.
Við rekumst alltaf á hin furðulegustu dýr, höfum öðru hvoru séð ansi stóra eðlu í garðinum okkar, höfðum eina litla inni hjá okkur um helgina, var frekar fyndið að labba á ganginum meðan hún hékk í loftinu fyrir ofan. Á myndinni er páfugl sem heilsaði upp á Arnór í wildlife garðinum.

1 comment:

Anonymous said...

Hæ - sama púúlið á ykkur! Minns verður alltaf sveittur þegar hann les um hlaup, lyftingar og þessar sjálfpíningar sem þið stundið þarna í 30 stiga hita. Hvað með að chilla og vera cool...:-) Mikið rosalega er alltaf gaman að lesa bloggið ykkar dúllurnar mínar ( og líka þínar Gaui..) Hafið það áfram eins og núna og endilega að taka helv... brekkuna á 5 mínútum - spái því að Viktor taki pabbann enda með ekta KR gen...:-)