Lífið gengur áfram hér og við njótum þess. Nú er nóvember bara að klárast og á morgun erum við búin að vera hér í 3 mánuði!! Tíminn hefur liðið alveg rosalega hratt og ég viðurkenni að ég ELSKA að geta ráðið svona hraðanum sjálf. Þegar við vöknum, (þá er ég að tala um okkur guttana, því Gaui vaknar alltaf korter í sjö á morgnanna til að byrja að vinna), þá eldar Viktor graut (yfirleitt um áttaleytið). Hann er orðinn alger snillingur í morgunmatnum okkar, eldar langbesta hafragrautinn í fjölskyldunni. Við borðum hann í rólegheitum, svo leika strákarnir sér aðeins, eða dunda sér við lestur og teikningar, áður en við byrjum að læra. Allt á okkar hraða, og ég meina það, það er ótrúlegt hvað lífið er stresslaust og þægilegt og samt náum við að gera heilmargt. Strákarnir eru mjög duglegir í skólanum, Viktor tók t.d. samræmdu prófin sem bekkurinn hans tók í október (fengum þau send) og fékk 9,7 og 9,2 í þeim. Arnór er að læra reikningaðferðir sem kenndar eru á vorönninni í 5. bekk og Orri er að margfalda og deila (veit hreinlega ekki hvort þau geri það í 1. bekk) og svo er lesturinn alveg að koma hjá honum. Og ekki bara það, enskan flýgur áfram hjá þeim, við Gaui getum alls ekki notað hana lengur til að tala um leyndarmál, Viktor skilur allt og Arnór flest allt. Það er helst þegar við erum að tala um afmælið hans Orra, sem er 1. des, að við getum notað ensku, því Orri er kominn styst og því hægt að ræða gjafirnar hans án þess að hann skilji.
Orri var annars ansi góður við pabba sinn síðustu helgi. Þá var Nottingham Forest að spila, og leikurinn sýndur beint á Setanta-stöðinni, sem við höfum hér. Gaui alveg brjálæðislega spenntur fyrir leiknum, tilkynnti hátiðlega að EKKERT myndi koma í veg fyrir að hann sæi þennan leik. Þá kom náttúrulega í ljós að fótboltinn hans Arnórs væri að halda mót, nákvæmlega á sama tíma. En það hindraði kallinn ekki, hann sá fyrri hlutann, og svo keyrði hann heim til að sjá sitt ástkæra Forest. Hann útskýrði það fyrir Arnóri, enda með smá erfiðleika að velja, Forest-leik eða Arnór í Kick start leik. En Arnór skildi það vel, sagði með innlifun við mig eftir á: "ég meina, hann hefur ekki séð þá vinna í SJÖ ár!" Svo við Arnór tókum strætó heim eftir mótið, sem er alltaf ævintýri út af fyrir sig, því strætóbílstjórarnir keyra eins og brjálæðingar. Allir gluggar opnir, strætó stútfullur, við þurftum að standa, músík á hæsta og svo klikkaðar beygjur og maður sveiflast og hendist til, vindurinn í hárinu svo ég sé ekkert út, en hreyfist svo mikið vegna akstursins að þetta kemur út eins og skrykkdans við þessa geðveiku músík sem örugglega er búin til eftir eina eða fimm jónur.
Allavega, Forest tapaði....... ekki bara tapaði, heldur gerði sjálfsmark, sem varð sigurmark leiksins...... og Gaui minn var viðkvæmur eins og unglingsstúlka í hjertesorg í nokkra klukkutíma á eftir. Strákarnir voru rosalega góðir við hann, miklu betri en ég, sem skil þetta kannski ekki alveg. Orri gerði frábært "bréf" til pabba síns í þessari sorg og í því var mynd, hann teiknaði Forest merkið, hjarta og skrifaði með barnastöfunum sínum "Forest tabar alrei meir". Hrikalega sætt og Gauja leið aðeins betur. Nokkrum dögum seinna, þegar ég sat í stólnum, djúpt sokkin í vinnu vegna kettlebells.is, þá fékk ég bréf frá Orra. Það voru innpakkaðir sokkar og í litlu bréfi stóð "Mamma, sokkar í þvott".
Þessi helgi er stór fríhelgi, því það er Indipendance day á morgun, 30. nóv. þá fagnar Barbados 42 ára sjálfstæði. Þeir eru reyndar búnir að vera að fagna allan nóvembermánuð, en hátíðahöldin ná hámarki þessa helgi. Frí í skólum á mánudaginn og allt. Okkur Gauja er boðið í einhvern rosalega fínan mat í kvöld, en þar sem við þekkjum ekki neina barnapíu fer hann líklega einn í þetta fínerí. Svo í fyrramálið ætlum við í messu, takk fyrir. Það verður messa í kirkju sem einn pabbinn í fótboltanum er prestur í, kirkjan heitir "Family church" eða eitthvað í þeim dúr, er mikið fjör, mikið sungið og klappað og börnin koma með skemmtiatriði og dansa og svona. Ég er spennt, þetta verður dálítið mikið öðruvísi en messa heima á Íslandi grunar mig, hmmm. Svo verður það afmæli Orra á mánudaginn!!!!!
1 comment:
Fékk Gaui áfallahjálp ad hætti hússins? Kv. Kiddi
Post a Comment