Sunday, October 19, 2008

Partý!! ..og ljót tá..


Tánöglin er loksins dottin af hjá Gauja og hann þorir aftur í sjóinn. Hann hefur alveg sleppt sjóböðum síðustu tvær vikurnar, setið eins og píslarvottur í sandinum meðan við kælum okkur í öldunum og skemmtum okkur aðeins of vel. Orri er að verða rosa duglegur í sjónum, í byrjun varð hann alltaf frekar reiður þegar sjórinn kom í andlitið hans, en núna er hann farinn að fatta þetta aðeins og meira að segja farinn að kafa smá til að sjá fiska. Hann er yfirleitt með armkúta og við erum alltaf að minna hann á "beygja-kreppa-sundur-saman". Hann hlustar þolinmóður á rulluna, og syndir svo hundasund. Viktor og Arnór eru eins og selir í sjónum, í dag vorum við á ströndinni næstum tvo tíma, og þeir voru í sjónum ALLAN tímann. Þvílíkir rúsínuputtar þegar þeir komu uppúr. En nöglin á Gauja..., hann er alltaf í sambandi við Maxwell, og sendi honum tölvupóst í fyrradag, "jæja, ég get loksins farið í sjóinn aftur, júhúú, sárið á tánni að gróa.. " og fékk tilbaka "ha, hefur EKKI farið í sjóinn vegna sársins....? Það er einmitt það sem þú ÁTT að gera, setja sárið í saltvatn!!!". Gaui fór næstum því að gráta, hehe, en bara næstum því!


Een, það hlaut að koma að því, okkur var boðið í fyrsta partýið okkar hér á eyjunni í gær... jei!! Helgin er búin að vera góð, við höfum haft þó nokkra sól og það er búið að vera heitt. Bajanar tala um að þetta sé heitasta ár sem þeir muna í langan tíma, því í raun eigi samkvæmt venju að vera byrjað að kólna í október. September á að vera sá heitasti, en eitthvað virðist þetta að breytast og hitinn dregst fram í október þessi árin. Við finnum það samt klárlega að sjórinn er farinn að kólna pínu, ekkert sem hægt er að kvarta yfir, sérstaklega þegar maður hugsar til sjóbaðanna heima, þar sem maður gekk reifur og kátur yfir stórgrýtið eftir ískalda sjósundið, því maður var orðinn tilfinnalaus í iljunum.... Við byrjuðum helgina á æfingum, Gaui fór með Arnór á fótboltaæfingu og tók æfingu sjálfur á meðan hann beið, enda tveggja tíma æfingar hjá guttunum. Ég vaknaði í rólegheitum með Viktori og Orra, og eftir morgunmat settist ég á sólbekk, bláan og gamlan hér fyrir utan meðan ég melti það mesta. Er að lesa svo skemmtilegar bækur sem ég fæ lánaðar á bókasafninu í Holetown. Það er pínkuponkulítið bókasafn sem er opið milli hálfellefu og eitt, og svo aftur milli tvö og fimm á daginn. Það er ekki tölvukerfi hjá þeim, ég spurði t.d. eftir mikla leit hvort það væru til barnabækur um eðlur, þá tölti hún pollróleg sjálf framfyrir skrifborðið, kíkti í hillurnar, leitaði lengi, og tilkynnti svo "no". Ef það er ekki inni, er það ekki til :) Við höfum farið núna reglulega einu sinni í viku og erum farin að kynnast starfsfólkinu á safninu.. öllum tveimur. Það vinnur þarna maður, hann sagði við mig í síðustu viku þegar við komum, "you had a big loss last week!" ég hélt náttúrulega að hann væri að tala um kreppuna á fjármálamörkuðum, hrun bankanna, Iceland on its knees.. og allt það, byrjaði "yes, it´s terrible, but we will get over it, we are figthers, a nation of fishermen, used to the hard life.." Nei þá var það fótboltinn.. við töpuðum fyrir Hollandi. Ég minnti hann stolt á að við unnum nú Makedóníu, honum fannst það nú lítið afrek.


Allavega, ég slakaði á þennan laugardagsmorgun á bláa eldgamla sólbekknum, þar til ég gat ekki meir og skellti mér þá í æfingu. Ég rúlla út handklæðum á bílaplanið, elti sólina eins og sönnum Íslendingi sæmir (þó það skilji mann næstum meðvitundarlausan eftir), og tók hindu squats, hindu push ups, hack squats með iranian armbeygjum og hoppi og ýmislegt fleira. Það svoleiðis lak af mér svitinn, ógeðslega gott og gaman. Við erum búin að finna steypustólpa frá girðingu, í hana er fastur járnbiti sem við getum náð taki á, og með þessum stólpa swingum við. Hann er örugglega milli 25 og 30 kíló, og gripið ekki beint ergonomískt, en samt er rosa gaman að swinga aftur :) Nágranninn fyrir ofan, hann Armstrong, var aðeins að fylgjast með mér frá svölunum, hann var með gest sem er búinn að vera í nokkra daga, stór, kolsvart tröll með sólgleraugu. Þeir kíktu öðru hvoru á mig, veifuðu aðeins og drukku kaffið sitt. Svo komu Gaui og Arnór heim, og við fórum fljótlega á St. Gabriels school festival. Það er árleg fjársöfnum skólans sem mjög margir af æfingafélögum Arnórs eru í. Það var matarsala, alls konar keppnir, andlitsmálning og bara almenn kátína í gangi. Við hittum foreldra sem við höfum aðeins spjallað við á æfingum (rosalegt hvað maður kynnist mikið öðru fólki í gegnum starf barnanna), það var smá bjór sötraður, meðan guttarnir eyddu peningunum okkar í draslmat, gos og fleira... þarf ekki að taka það fram að brosið náði hringinn! Svo fórum við heim og þegar heim er komið er bara allt logandi í stuði á efri hæðinni. Nágranninn, hann Armstrong bara með partý! Hann Arnstrong er alveg frábær kall, hann er eitthvað milli 30 og 40 ára, vinnur hjá Sameinuðu þjóðunum, er frá St. Lucia, sem er næsta eyja, á kærustu sem býr þar, en hann býr einn hér. Yfirleitt heyrist lítið í honum og hann vinnur mikið, en síðustu daga hefur hann verið með vin í heimsókn (tröllið sem veifaði mér af svölunum) og þegar þeir tala saman, þá er bara eins og heilt fótboltalið sé í upphitun fyrir bikarúrslitaleik, lætin eru þvílík. Allt í góðu alltaf, hlátur öðru hvoru, en mjög fyndið að heyra þetta hingað niður. Líður eins og dauðyfli, að tala svona lágt hérna heima, þegar ég heyri í þeim uppi. Hef líka stundum (í mestu látunum) velt því fyrir mér hvort ég myndi geta þekkt vininn í line-uppi, svona EF Armstrong fyndist nú myrtur og vinurinn væri grunaður.. en það er bara þegar samræður þeirra hafa snúist um Obama og Mccain. Þeir eru sammála reyndar, vilja báðir Obama, en það er bara svo gaman að tala um kosningarnar AÐ ÞAÐ VERÐUR BARA ALLT BRJÁLAÐ... ÞÓ VIÐ SÉUM BARA TVEIR!!!!!!!!!!!!!!!!! Og þegar við komum sem sagt heim í gær um sexleytið hékk Armstrong yfir handriðið og bauð okkur upp í súpu! Við sáum svaka partý í gangi, en okkur var boðið í súpu, ekta St. Lucian súpu, hann væri með nokkra vini frá heimaeyjunni sinni í heimsókn og vildi bjóða okkur. Auðvitað vorum við til, guttarnir fóru inn til okkar og voru mjög fegnir að komast heim og sleppa við meira socializing, svo við töltum upp, spennt að vita hvernig þetta yrði, eina hvíta fólkið auðvitað, en við erum farin að venjast því, fólk er bara fólk. Útlitið á súpunni hins vegar minnti ansi mikið á baunasúpuna heima, nema að þetta var svínahalasúpa :)))) og það vantaði sko ekki svínahalana, ónei. Gaui japlaði á nokkrum. Mér tókst sem betur fer að taka ausuna úr höndum Gauja þegar hann ætlaði að skammta mér, hann er svona "fáum sem flesta bita!-kall", meðan ég er sátt við bara vökvann, allavega meðan ég tjékka á bragðinu. Arnstrong var búinn að vara okkur við að hún væri ansi sölt, en svei mér þá ég fann bara ekki einn einasta saltpunkt í henni og hefði saltað hana ef ég hefði fundið dunkinn. Það eina sem ég þekkti í súpunni voru jams (sterakartöflurnar góðu) og svo svínahalarnir. Veit ekki hvað hitt var, en súpan var góð. Og þetta var sniðugt partý! Það byrjaði greinilega um fjögur-fimmleytið, romm á borðið og bjór í í kæli, og svo auðvitað súpan. Svo er fólk bara að spjalla og borða til svona sex-sjö. Þá var bara skjávarpinn tekinn fram og tónlist og vídeó sett af stað, og fólk var byrjað að dansa og syngja. Þá fórum við nú niður, södd og sæl og dauðþreytt í hausnum, hehe, eftir að reyna að halda upp samræðum á Bajan-ensku í BRJÁLAÐRI TÓNLIST. Nú partýið hélt áfram, rosaleg tónlist og SVAKALEGA HÁVÆRAR SAMRÆÐUR til ca. tíu. Þá slökkti nú tillitssami Armstrong á tónlistinni, en ég sver það, að það var voðalega lítill munur. Fólkið talar svo hátt, að það er bara fyndið, er eins og að hafa tuttugu Eika í sömu stofu. Og þau töluðu til ca. eitt eða tvö, allt í góðu, maðurinn hefur eiginlega aldrei gesti, en þetta var eins og það væri standandi rifrildi fyrir ofan okkur frá sex til tvö í nótt, híhí. Þetta var algert snilldarbragð, að bjóða okkur í súpuna og við hittum liðið og erum þar af leiðandi miklu sáttari við partýið og lætin. Var bara ekkert mál og við ætlum að gera þetta næst þegar við höldum partý heima ;)


Tónlistin hérna er kafli út af fyrir sig. Við hlustum soldið á útvarpið hér, en það getur orðið of mikið jafnvel fyrir mig. Þeir eru alveg hreint brjálæðislega væmnir í tónlistarsmekk hérna, það er Michel Bolton, Lionel Ritchie, Witney Houston, Mariah Carey og ég veit ekki hvað og hvað.. á öllum stöðvum nema einni, þar er hipp hopp. Gaui talar um að þetta geti verið hættulegt fyrir testósterónlevellið. Maxwell sagði okkur í sumar að það væri búið að sanna það að þegar strákar og menn horfa á stríðsmyndir og bardagamyndir auki það testósterónmagnið í líkamanum og geri þá þar af leiðandi að "meiri mönnum" (lesist með dimmri röddu), meðan ástarsögur og ég tala nú ekki um "romantic comedy" komi testóinu í hættulega lág gildi. Hmmm. við viljum það ekki, svo við hlustum mikið á geisladiska í bílnum, því væmin lög eru á sama lista og rómantískar gamanmyndir :) Eina rokkið sem við heyrum er í ipodunum okkar, og það reddar alveg æfingunum, því get ég lofað! Mann myndi bara langa að gráta ef maður æfir með Lionel Ritchie. Taka tvær armbeygjur og enda bara í fósturstellingu snöktandi.

4 comments:

Anonymous said...

Hahaha, snilldar frásögn Vala! Maður lifir sig bara inn í þetta :)

Anonymous said...

Hæ Vala. Rosalega gaman að lesa pistillinn þinn"! Kannast við svona "tal-læti" frá fjölskydunni minni á Englandi! Nú væri gott að geta hitað sig í heitum sjó, en hér er kalt og snjórinn farin að heilsa okkur. Alexander saknar Arnórs meira með degi hverjum og tuðar stöðugt um að heimsækja ykkur. Er einhver leið til að strákarnir gæti hafi meiri samband? Allavega viljum við senda smá jólaglaðning til Arnórs. Er amma Dóra að koma til ykkar bráðum, og ef svo, megum við senda pakka til Arnórs með henni? Kannski getur þú hafa samband við mig á email (jusig@mi.is). Bið að heilsa Gauja, Viktor, Arnóri og Orra. Kveðja Judy :)

Kristófer said...

Hallo þetta er Kristófer

Unknown said...

Elsku Vala, Gaui og synir. Er búin að lesa meira og minna allt bloggið ykkar og er ótrúlega stoltur af þessu ævintýri ykkar.
Einstakt að lesa hvernig þið tæklið hlutina með jafnaðargeði, nægjusemi og opnum hug.
Finnst þið vera að gera aðdáunarverða hluti fyrir syni ykkar sem endast þeim alla ævi.
Vona að við fáum tækifæri að hitta ykkur einhvern daginn í þessari reisu.
Bestu kveðjur.
Siggi, Hildur og Synir