Fimmtudagur í dag og við í miklum rökræðum við okkur sjálf og íslensku krónuna. Þetta er ansi svakalegt það sem er að gerast með þennan blessaða gjaldmiðil og það er heldur betur að höggva ferðasjóðinn sem við erum búin að vera að safna síðustu þrjú árin. En í stað þess að koma heim með skottið á milli lappanna eftir að klára peninginn á tveimur mánuðum eða eins og Viktor stakk uppá: látum fólkið heima bara senda okkur mat og það sem við þurfum... hmm góð hugmynd, hákarl og brennivín líklega það eina sem ekki myndi skemmast á 3ja vikna póstferðalagi í 30°stiga hita, þá ætlum við að skoða okkar venjur.
Hann Gummi hennar Maríu sendi okkur alveg frábært bréf í dag, þar sem hann kom með nokkur ráð um hvernig við gætum mætt þessum vanda, enda sjóaður í hinum ýmsustu hlutum hann Gummi og gott fyrir okkur að hafa aðgang að svona góðum mönnum! Hann fékk okkur virkilega til að hugsa, og við tókum fund í familíunni og höfum ákveðið ýmislegt sem við ætlum að breyta í neysluvenjum. Við höfum hingað til sótt mikið í "evrópulegar" matarbúðir, þar sem ég meðal annars fann fetaost og kotasælu mér til mikillar gleði (og mikillar eyðslu). En það er bara þannig að slíkar búðir eru alveg hreint svakalega dýrar og nú ætlum við að sækja meira inn á markaðina :) Já, markaðina í Speightstown, þar sem við getum fengið ávexti og grænmeti beint frá fátækum bændum og fiskimarkaðinn í Bridgetown þar sem fiskurinn er ferskari en andskotinn. Ekki lengur "eins og heima" hugsun, heldur einblína á hvernig þau eru að borða hér í landi. Því launin eru ekkert sérstaklega há, hjá svona venjulega vinnufólkinu en matur dýr, svo einhver brögð hljótum við að geta lært af þeim. Og við erum byrjuð. Ég ræddi við mömmunar á bardagaæfingunni og fékk nöfn á ýmsum búðum sem eru "Bónus" og svo er ég meira að segja búin að fá tilboð um kennslu í matreiðslu á Bajan-réttum, eitthvað sem t.d. heitir coo-coo sem er víst svaka gott. Hún talaði ansi hratt daman, en það sem ég náði er að þetta er soðið þar til það er slímugt, þá tekið upp og rúllað upp úr méli og eitthvað gert við það sem ég veit ekki hvað er. En víst rosalega gott "jús gæs go læk ih".... ég ætla allavega í kennslustund hjá henni og bíð spennt.
Annars ganga hlutir nokkuð vel, ef litið er frá þessum blessuðu peningum. Ég er orðin svakalega góð í umferðinni, farin að keyra eins og herforingi um allar götur hér og jafnvel farin að geta talað OG keyrt í einu. Það er rosalega mikið af bílum hér á litlu svæði og oft umferðarteppur (eru jafnmargir íbúar hér og á Íslandi, en á svæði sem nokkurn vegin dekkar Stór-Reykjavíkursvæðið). Mikið af bílum, en um leið mikil umferðamenning hérna, þeir eru mjög viljugir að hleypa inn í raðir, þegar maður kemur að bílum sem vill komast inn á akrein blikkar maður ljósunum tvisvar snöggt og hægir á sér. Þá keyra þeir inn í röðina, ýta létt á flautuna tvisvar, maður lyftir vísifingri rólega upp, mjög kúl, og allir eru kátir. Það er ekki skylda að hafa ljós á bílunum á daginn, svo það er ekki svona automatiskt sem það kviknar á ljósunum þegar maður startar bílnum eins og heima. Hér dimmir mjög hratt, tekur ca. korter þá er bara dimmt, og þá er eins gott að kveikja á ljósunum. Svo eru Barbadosbúar mjög sparsamir á rafmagnið, enda mjög dýrt hér. En þeir spara það í hinum og þessum götum líka, svo maður er kannski að keyra og er svo bara allt í einu á dimmu svæði, þar sem slökkt er á öllum ljósstaurum í smá stund, og svo er maður kominn aftur á svæði þar sem kveikt er á þeim. Rosa skrítið og engin sérstök regla í þessu. Allavega, við vorum að keyra um daginn, ég og guttarnir á leið af fótboltaæfingu og allt orðið dimmt. Ég þurfti dálítið að einbeita mér í dimmunni, sérstalega á dimmustu svæðunum, en þetta gekk nokkuð vel miðað við óvana hægriakstursmanneskju. Þar til við komum að götunni inn í hverfið okkar, þá verður bara svona svakalega dimmt og ég vanda mig enn meira, komin með andlitið upp að framrúðunni og er að gera mitt besta. Sé svo allt í einu tvær pollrólegar manneskjur sem ganga á MIÐRI götunni og eru sko ekkert að færa sig þótt ég sé komin með húddið alveg upp að rassinum á þeim. Fatta þá auðvitað að ég hafði bara alveg gleymt að kveikja á bílljósunum!! Mér brá svo við að fatta það, að ég kveiki rosa snöggt og ég held bara að ég hafi aldrei séð tvær manneskjur hoppa jafnhátt. Við þetta stökk þeirra missi ég út úr mér þennan svakalega hrossahlátur, fatta svo að glugginn er opinn á bílnum... það eina sem mér datt í hug í stöðunni, var að beygja mig djúpt niður í sætið og vona að þau hafi ekki séð númerið á bílnum þegar ég brunaði framhjá.
Á nóttunni erum við alltaf með skemmtilega "tónlist". Þetta eru pínulitlir froskar sem syngja alla nóttina, eru ábyggilega margar milljónir af þeim og þetta er voða huggulegt hljóð. Bajanar segja þetta reyndar vera "bloody anoying" en þetta er nú samt eitt af sérkennum Barbados og okkur finnst þetta skemmtilega spes. Þetta eru pínulitlir froskar sem við sjáum ósköp sjaldan, en einstaka sinnum droppar einn og einn hingað inn fyrir slysni. Á myndinni sjáið þið einn þeirra, hér er smá gáta: Hver á tærnar??
2 comments:
Ég held að Viktor eigi tærnar!
Alltaf skemmtilegt að fylgjast með ykkur og lesa frásagnirnar (þú ert fínn penni Vala) og ég er svo innilega sammála þessu með að taka innfædda sér til fyrirmyndar í lífsmátanum. Það er örugglega það eina sem dugar. Bestu kveðjur úr landi fárra, ónýtra króna og snjó þar að auki :-) Guðrún & co.
Ég er nokkuð viss um að þetta séu tærnar hans Viktors :o) kv. Alda H.
Post a Comment